Allar færslur eftir Hjörtur Már Benediktsson

92 b

Sprengidagur 9. febrúar.

Nú fer að styttast í sprengidaginn sem er þriðjudaginn 9. febrúar. Löng hefð er fyrir því á Íslandi að borða saltkjöt með öllu tilheyrandi. Þar er íslenska gulrófan í stóru hlutverki.

Dagarnir fyrir sprengidag eru lang söluhæstu dagar hjá okkur rófubændum og allir keppast við að þvo og pakka. Hér er Einar bóndi á Norður Hvoli í Mýrdal að þvo og pakka og Birna hefur stokkið af stólnum til að smella af honum mynd.  Hér á heimasíðunni má finna  uppskriftir af ýmsum réttum sem innihalda rófur.


Norður Hvoll 2015

Uppskera 2015

Vegna smá tækniörðugleika hefur ekki verið sett inn frétt í nokkurn tíma.

Nú er að sjálfsögðu öll uppskera komin í hús. Vorið var kalt og rófurnar lengi af stað en það breyttist um leið og hlýnaði. Seinnipart sumars tóku við endalausar rigningar sem hömluðu upptöku en það var þó bót í máli að hlýindi héldust lengi, rófurnar voru að vaxa langt fram eftir og uppskeran bjargaðist eftir nokkurn barning. Þetta átti sérstaklega við á Suðurlandi, en í Árnessýslu var uppskera góð en lakari í Skaftafellssýslu. Ef geymsla heppnast vel í vetur má búast við að uppskera nái að anna innanlandsmarkaði.  Myndina hér að ofan tók Birna á Norður Hvoli af bónda sínum Einari, sem er þarna við uppskerustörf ásamt aðstoðarmönnum.


Vorverkin 2015

Nú eru rófubændur búnir að sá á þessu óvenjukalda vori.  Rófurnar eru byrjaðar að koma upp eins og sést á þessari mynd sem tekin var í síðustu viku.   Þetta er sérlega vel heppnuð sáning með hæfilegu millibili.  Undir akrýldúkum og netdúkum eru plönturnar orðnar heldur stærri og má búast við nýjum íslenskum rófum í lok júlí  eða byrjun ágúst.  Eftir svona kalt vor má búast við heldur lakari uppskeru en venjulega en þó getur sumarið ráðið úrslitum um það verði það heitt og gott. Haustið getur líka haft töluvert að segja.

IMG_3003 b

Ný heimasíða og uppskriftabæklingur

Nú á dögunum var ný heimasíða uppfærð fyrir Félag gulrófnabænda.  Jafnhliða þessu verkefni lét félagið gera vandaða uppskriftabæklinga sem dreift var í búðum.  Þar gefa 7 matgæðingar uppskriftir af nýjum rófuréttum.  Hér á heimasíðunni má sjá allar þessar uppskriftir. Með þessu framtaki vill félagið kynna rófuna á nýjan hátt og efla þannig neyslu hennar, en rófan er eitt það fyrsta grænmeti sem ræktað var á Íslandi. Á síðunni eru einnig tenglar á ýmsar heimasíður sem tengjast rófunni á einn eða annan hátt.  Félagið vill þakka öllum þeim sem komu að þessu verkefni fyrir frábærlega vel unnin störf.                       Myndina sem fylgir þessari frétt tók Birna á Norður- Hvoli, en oft má finna ýmsar spaugilegar rófur í görðum á haustin.   Þessar tvær hafa kunnað einstaklega vel við að liggja hlið við hlið og hreinlega sameinast.