Allar færslur eftir rofa

Rófur í MBL

Rófur hreinsa líkamann

Eftirfarandi er úrdráttur úr frétt sem er tekin af Mbl.is  smartlandi Mörtu Maríu.

Það er ekki bara með djús-kúrum sem við getum stuðlað að náttúrulegri hreinsun líkamans af ýmsum eiturefnum.

Með því að gæta þess að hafa ýmiss  matvæli reglulega í mataræðinu vinnum við að því að styrkja m.a.  lifrina, nýrun og önnur líffæri, sem daglega vinna að eðlilegri hreinsunarstarfsemi líkamans. Á sprengidag er ekki slæmt að vita til þess að t.d. að bæði rófur og linsubaunir geta reynst vel við hreinsunarstarfið þar samkvæmt heilsusíðunni SHAPE:

Rófur eru  eitt af  grænmetinu sem er ríkt af andoxunarefnum. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að neysla á rófum getur unnið gegn myndun krabbameins auk þess sem þær geta einnig dregið úr hvers kyns bólgum. Þetta er ekki amalegt að hafa í huga nú þegar rófustappan kemur sterk inn á sprengidaginn.


rofufranskar

Rófur sem franskar

Eftirfarandi uppskrift var tekin af Heilshugar.com

Kjúklingur og franskar
Kvöldmaturinn hjá mér og stelpunum, ljúffengur grillaður kjúklingur og rófufranskar, rófa skorin í strimla og settar í poka með smá season all eða öðru kryddi og 1-2 msk olíu og blandað saman, það síðan sett á plötu með smjörpappír og bakað í ofni í ca 20 mín eða þar til aðeins farnar að sýna lit…
Sósan er gerð úr slatta af sýrðum rjóma og slettu af tómatsósu…

Einnig er hægt að gera franskarnar úr t.d. sætri kartöflu, en það er svo frábært með rófurnar að þær eru bæði ódýrar og hægt að borða mikið magn af þeim án þess að fá nokkuð samviskubit, enda mjög hitaeiningasnauðar..


SupurRofusupa

Rófusúpa með beikoni

Sigurveig Káradóttir matgæðingur,kokkur ,bloggari og höfundur bókarinnar Súpur allt árið sem kom út í síðustu viku var í viðtali í Fréttablaðinu 20. október og gaf lesendum þessa uppskrift sem hér fylgir.  Hún gaf okkur leyfi til að birta hana hér á síðunni.   Sigurveig segist nota oft rófur enda ódýrt og hollt hráefni.

Rófusúpa með beikoni

 

Skerið rófurnar í bita, veltið upp úr ólífuolíu og stráið yfir þær örlitlu sjávarsalti.

Bakið í ofni við 180-190 gráður í 45-60 mínútur, eða þar til þær eru farnar að taka

lit og orðnar vel mjúkar.

Pancettan/beikonið er skorið í litla bita og steikt í potti þar til það er orðið stökkt.

Takið það úr pottinum og setjið smátt saxaðan laukinn í pottinn. Leyfið honum

að malla á lágum hita í beikonfitunni í 6-7 mínútur, þar til hann er orðinn glær.

Bætið hvítvíninu í og leyfið að gufa aðeins upp áður en soðið fer út í. Setjið loks

rófurnar út í ásamt lárviðarlaufi og svörtum pipar. Látið malla í um 10 mínútur og

maukið síðan súpuna.

Kúmínfræin eru ristuð vel á þurri pönnu en gætið þess að þau brenni ekki. Þau

má síðan mala í mortéli eða hafa heil í súpunni. Hellið súpunni aftur í pottinn,

kryddið með tumerik, cayenne-pipar, og kúmínfræjunum. Saltið og piprið ef þurfa

þykir. Bætið rjómanum saman við og látið súpuna hitna að suðu. Berið fram með

stökku beikoninu og nokkrum kúmínfræjum ofan á.

Fyrir 3-4

900 g rofur – um 3 stk medalstorar rofur

100 g pancetta/beikon

4-5 msk olifuolia

150 g laukur

1 l kjuklingasod/granmetissod

1 tsk kuminfra

40-50 ml hvitvin

. turmerik

. tsk cayenne-pipar

. tsk hvitur maladur pipar

1-2 tsk sjavarsalt

. tsk svartur pipar

120 ml rjomi

stokkt beikon ef vill

1 larvidarlauf

Þessi súpa er tilvalin jafnt í hádegisverð eða kvöldverð með góðu brauði og hún er

ekki verri köld. Ef þið viljið, má sleppa beikoninu en þá er gott að bæta við aðeins meira kryddi.

 


fylltarrofur

Fylltar rófur

Í blaðinu Selfoss Suðurland 14. tölublað sem kom út 1. nóvember birtist eftirfarandi grein eftir Kristjönu Sigmundsdóttur sem er áhugamanneskja um, meiri rófunotkun í matargerð. Hún gaf okkur leyfi til að birta greinina með mynd og þökkum við henni kærlega fyrir. En við gefum Kristjönu orðið.

Rófur eru oft vanmetnar í matargerð en þær eru hollar, ódýrar og góðar. Mér datt í hug í gær að setja fyllingu í rófur og úr varð verulega góður matur.
Þetta er líka skemmtilegur matur og tilvalið að leyfa börnum að taka þátt í matreiðslunni.
Ég var með tvær meðalstórar rófur og sauð þær heilar í saltvatni . Rófur þurfa langa suðu og trúlega voru þær klukkutíma í pottinum – gott er að stinga t.d. grillpinna í þær til að vita hvort þær eru soðnar í gegn. Látið þær svo kólna.
Skerið ofan af rófunum og takið með skeið aldinkjötið innan úr þeim.
Fyllingin sem ég gerði.
Aldinkjötið úr rófunum
1 laukur
400 gr. nautahakk
2, 5 tsk karrý
Steinselja
1 dl. Jógúrt eða AB mjólk
Salt og pipar
Rifinn ostur.
Sneiðið laukinn smátt og látið hann mýkjast á pönnu í smá olíu með brytjuðu aldinkjötinu úr rófunni. Tekið til hliðar og hakkið síðan brúnað með karríinu, setjið grænmetið út í og AB mjólkina. Soðið smá stund saman og smakkað til með salti og pipar.
Rófurnar settar í eldfast mót og fyllingin sett í þær og osturinn yfir.
Bakað í ca. 200° heitum ofni í 15 – 20 mínútur.
Skreytt með steinselju og borið fram með góðu salati.
Auðvitað má búa til margar útgáfur af fyllingu og krydda hakkið eins og börnum finnst best ef börn eru á heimilinu.


litlarofan02.jpg

Nýjar rófur á leiðinni

Nú fer að styttast í að nýjar rófur komi á markaðinn. Þessi ungi afastrákur Aron Eðvarð Björnsson kíkti í garðinn og fann þessa stóru rófu og þetta fína brokkolí.

Sumarið hefur verið einstaklega þurrt og það hefur hamlað nokkuð sprettu nema hjá þeim sem hafa getað vökvað. Á móti kemur að mjög sólríkt hefur verið og hlýtt.
Rófubændur eru nú að gera sig klára fyrir upptöku á því allra fyrsta.


umhverfisvika

Umhverfisvika í Fjölbraut Ármúla

Þriðjudaginn 27. mars mætti ritari Félags gulrófnabænda á umhverfisviku í Fjölbrautarskólanum í Ármúla. Boðið var upp á íslenskt grænmeti og þar á meðal var gestum og gangandi boðið að smakka rófur sem eins og allir vita eru frábært snakk, fullar af A og C vítamíni og fitusnauðar. Einnig var áréttað að þær eru góðar bæði stappaðar, steiktar, soðnar og hráar.

Með umhverfisvikunni vildi skólinn leggja áherslu á íslenska framleiðslu með tilliti til hollustu, hreinleika og síðast en ekki síst gjaldeyrissparnað. Einnig vekja athygli á orkueyðslu og útblástursmengun við flutning milli landa.

Á myndinni eru nemendur og kennari á umhverfisbraut að gefa smakk við grænmetisborðið.


litlarofan01.jpg

Sprengidagur

Sprengidagur er næstkomandi þriðjudag 21. febrúar. Þá er það gömul íslensk hefð að borða saltkjöt og baunir eins og hver getur í sig látið. Þá er það einnig ómissandi hefð að með þessu öllu er að sjálfsögðu rófur, ýmist soðnar sér eða settar út í baunasúpuna. Í vikunni fyrir sprengidag er langmesta sala á rófum á Íslandi og er því handagangur í öskjunni hjá bændum og allir kallaðir til hjálpar sem vettlingi geta valdið, eins og þessar mæðgur sem ekki létu sitt eftir liggja til að hjálpa pabba og afa núna í vikunni.


stelpur

Bolir

Félag gulrófnabænda lét prenta þessa fallegu boli sem nú eru til sölu. Á bolnum stendur; Ertu rófulaus við björgum því. Þeir sem vilja eignast svona boli vinsamlegast hafi samband við Hjört í síma 861 5050.


Aðalfundur

Aðalfundur félagsins var haldinn að Smáratúni laugardaginn 7. desember. Eftirtaldir voru kosnir í stjórn: Hrafnkell Karlsson formaður, Guðni Einarsson gjaldkeri, Hjörtur Benediktsson ritari , Tómas Pálsson og Einar Magnússon. Í varastjórn: Hannes Jóhannsson, Guðmundur Sæmundsson, Grétar Einarsson, Jón Ögmundsson og Bjarki Guðnason. Endurskoðandi reikninga Jón Ögmundsson og til vara Bjarki Guðnason.

Hrafnkell Karlsson formaður félagsins og kona hans Sigríður Gestsdóttir
Hrafnkell Karlsson formaður félagsins og kona hans Sigríður Gestsdóttir
Hér er ný stjórn Félags gulrófnabænda
Hér er ný stjórn Félags gulrófnabænda; Einar Magnússon Norður Hvoli, Guðni Einarsson Þórisholti gjaldkeri, Bjarki Guðnason Maríubakka varamaður Tómasar á Litlu Heiði, Hjörtur Benediktsson Hveragerði ritari og Hrafnkell Karlsson Hrauni formaður