Undanfarið hafa Svavar og Berglind á Karlastöðum í Berufirði unnið að þróun á snakki úr gulrófum. Þeim fannst vanta snakk á markað úr heilnæmum hráefnum sem hægt væri að rækta hér á landi. Gulrófan varð fyrir valinu, sítróna norðursins, stútfull af C-vítamíni og stuði.
Rófurnar eru sneiddar og bakaðar (ekki djúpsteiktar) og svo eru þær kryddaðar með ferskum chilipipar, hvítlauk og sjávarsalti. Markmiðið er að framleiðslan og ræktun allra hráefna fari fram á sveitabæ þeirra, Karlsstöðum, en þau eru nú þegar búin að undirbúa nokkra hektara lands fyrir gulrófuræktun.
Vöruþróunin var gerð í samstarfi við Matís og á lokametrum þróunarvinnunnar gufaði snakkið upp úr skálunum, svo góðar voru viðtökurnar. Markmiðið er að setja snakkið á markað í vor en fyrst þarf að byggja aðstöðu fyrir framleiðsluna, sjálfa snakkverksmiðjuna!
Á Karlsstöðum er eldra fjós sem mun fá nýtt líf. Fyrsta skref var að rífa allar innréttingar og klæðningar innan úr því. Þá teiknuðu þau upp snakkverksmiðjuna, réðu smið, og hófust handa við að byggja húsið upp á nýtt.
Mikið verk hefur áunnist en það er ennþá langt í land. Markmiðið er að verkið verði klárt fyrir vorið. Þá verði snakkverksmiðjan komin á laggirnar, og á markað komi fyrsta flokks heilsusamlegt sveitasnakk úr gulrófum, undir merki Havarí
Hér gefst áhugasömum kostur á að leggja verkefninu lið. Hægt er að kaupa fjármögnunarpakka í öllum stærðum og gerðum og hjálpa þannig til við að koma á fót nýstárlegri snakkverksmiðju þar sem lögð verður stund á matarhandverk úr hágæða hráefnum.
Ýmsar leiðir eru í boði, allt frá snakkpakka úr fyrstu lögun ásamt árituðu viðurkenningarskjali, upp í heimsókn í snakkverksmiðjuna, dvöl á gistiheimilinu, tónleika með Prins Póló og Bulsu veislu!
Hægt er að fylgjast með framvindunni á www.facebook.com/hahavari