Í blaðinu Selfoss Suðurland 14. tölublað sem kom út 1. nóvember birtist eftirfarandi grein eftir Kristjönu Sigmundsdóttur sem er áhugamanneskja um, meiri rófunotkun í matargerð. Hún gaf okkur leyfi til að birta greinina með mynd og þökkum við henni kærlega fyrir. En við gefum Kristjönu orðið.
Rófur eru oft vanmetnar í matargerð en þær eru hollar, ódýrar og góðar. Mér datt í hug í gær að setja fyllingu í rófur og úr varð verulega góður matur.
Þetta er líka skemmtilegur matur og tilvalið að leyfa börnum að taka þátt í matreiðslunni.
Ég var með tvær meðalstórar rófur og sauð þær heilar í saltvatni . Rófur þurfa langa suðu og trúlega voru þær klukkutíma í pottinum – gott er að stinga t.d. grillpinna í þær til að vita hvort þær eru soðnar í gegn. Látið þær svo kólna.
Skerið ofan af rófunum og takið með skeið aldinkjötið innan úr þeim.
Fyllingin sem ég gerði.
Aldinkjötið úr rófunum
1 laukur
400 gr. nautahakk
2, 5 tsk karrý
Steinselja
1 dl. Jógúrt  eða AB mjólk
Salt og pipar
Rifinn ostur.
Sneiðið laukinn smátt og látið hann mýkjast á pönnu í smá olíu með brytjuðu aldinkjötinu úr rófunni.  Tekið til hliðar og hakkið síðan brúnað með karríinu,  setjið grænmetið út í og AB mjólkina.  Soðið smá stund saman og smakkað til með salti og pipar.
Rófurnar settar í eldfast mót og fyllingin sett í þær  og osturinn yfir.
Bakað í  ca. 200° heitum ofni í 15 – 20 mínútur.
Skreytt með steinselju og borið fram með góðu salati.
Auðvitað má búa til margar útgáfur af fyllingu og krydda hakkið eins og börnum finnst best  ef börn eru á heimilinu.
 
		 
		 
		 
		 
		
