Nú fer að styttast í Bóndadaginn en hann er föstudaginn 24. janúar næstkomandi. Þá fara af stað hin sívinsælu þorrablót um allt land sem njóta alltaf meiri og meiri vinsælda með þjóðlegum mat og skemmtilegheitum. Eitt eru allir sammála um en það er að rófustappan er ómissandi á borðum með súrmatnum, svo sem eins og með öðru.
Nú eru rófubændur að undirbúa sig undir afhendingu á rófum á markað enda fer í hönd eitt mesta rófusölutímabil ársins. Myndina sem hér fylgir tók Birna Viðarsdóttir rófubóndi á Norður Hvoli í Mýrdal en þau hjón, hún og Einar Magnússon eru öflugir rófubændur sem nú flokka og pakka af kappi.
Uppskera ársins var æði misjöfn milli héraða eins og komið hefur fyrir áður, einkum vegna veðurfars en birgðir ættu að endast lengi vetrar. Vinsældir rófunnar eru ávalt miklar og eru heldur að aukast ef eitthvað er.
Hér á síðunni er mikið magn af uppskriftum sem við hvetjum alla til að skoða. Hægt er að sjóða, steikja og pressa rófuna og gera ótrúlegustu hluti með þessa vítamínríku afurð sem stundum er kölluð sítróna norðursins.