Allar færslur eftir Hjörtur Már Benediktsson

139634775_762793824349423_8994138288218111731_o

Þorri er genginn í garð.

Sæll og glaður núna kýli kvið
með kofareyktum sauð og pungum
hákarl góður harðfiskur og svið
halda mér svo gasalega ungum.

Nú er þorrinn genginn í garð og þá fá allir sér þorramat að gömlum og góðum sið eins og segir hér í vísunni að ofan. Að sjálfsöðu er rófustappa ómissandi á þennan disk. Íslenskar rófur eru nú í öllum búðum og nóg til af þeim. Verði ykkur að góðu.


Fjóla 2020

Sandvíkurrófur

Í síðasta Bændablaði var ljómandi forsíðugrein eftir Magnús Hlyn um hana Fjólu Signý Hannesdóttur í Stóru Sandvík sem hefur nú tekið við búskap af föður sínum Hannesi Jóhannssyni. Þar hafa verið ræktaðar rófur og framleitt gulrófnafræ í 40 ár. Ársframleiðslan er um 18 kg og það eru flestir íslenskir rófubændur sem nota fræ frá þeim. Sandvíkurrófan er afsprengi út frá gömlu Kálfafellsrófunni og hefur reynst ljómandi vel. Ársneyslan af rófum er á bilinu 800 – til 1000 tonn. Magnús Hlynur veitti mér leyfi til að nota myndina sína.


Dúkar 2020

Rófur 2020

Nú eru rófur farnar að spíra og komnar vel upp og taka við spennandi tímar.  Gulfrófnabændur breiða langflestir  káldúk eða netdúk yfir garða sína til að hefta  aðgang kálflugunnar.  Dúkurinn er þéttriðin nælon dúkur sem  dugar í nokkur ár sé farið vel með hann.  Hann er hafður yfir,  vel fram í ágúst eða þar til hættan er liðin hjá.  Nokkrir nýjir gulrófnabændur bættust í hópinn í vor um leið og aðrir hættu, eins og gengur.


Rófa IMG_1386

Rófur eru bestar

Nú eru allar rófur komnar í hús og sala í fullum gangi. Uppskeran var þokkaleg víðast hvar. Rófur eru eins og allir vita fullar af C vítamíni og eru notaðar bæði soðnar, steiktar og hráar við öll tækifæri. Eins eru þær tilvalið snakk. Munið að á síðunni eru uppskriftir sem hægt er að nota að vild.


Rófur á þorra.

RófuhesturÍ dag er bóndadagur og er skilgreindur hér að neðan. Félag gulrófnabænda vill vekja athygli á að rófan er ómissandi með þorramatnum sem og öðrum mat og er rófustappan sérlega vinsæl, Hér að neðan er einföld uppskrift að henni.
Það eru fleiri enn mannfólkið sem er hrifið af rófunni eins og þessi brúni hestur.

Fyrsti dagur Þorra er nefndur bóndadagur en sá síðasti þorraþræll. Um fyrsta dag Þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728, að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða.

Eins segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að bóndi skyldi bjóða þorra velkomin með eftirfarandi hætti:

… með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir aða fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.

Rófustappa

600 gr gulrófur
2 msk smjör
smávegis mjólk eða rjómi
1 tsk sykur
1 tsk salt
pipar, ef vill.
Gulrófurnar soðnar í léttsöltuðu vatni þar til þær eru meyrar. Þá er vatninu hellt af og þær látnar bíða í 1-2 mínútur í pottinum þar mest af vökvanum gufi upp.
Smjörinu bætt í pottinn og rófurnar stappað vel með kartöflustappara.
Þynnt með smávegis af mjólk eða rjóma ef vill.
Kryddað að lokum með sykri og salti (pipar

 

 

 

2016  5

Uppskera 2016

Nú eru gulrófnabændur farnir að senda nýjar rófur á markaðinn.  Tekið er upp með hönd fyrst um sinn og þær stærstu valdar innan úr beðunum.  Sprettan hefur verið góð og það má segja um allt illgresi líka, því nokkrir hafa lent illa í þeim leiðinlega gesti þetta sumarið.  Eins hefur kálmaðkur gert talsverðan usla í sumar.  Þrátt fyrir allt er búist við bærilegri uppskeru víðast hvar.  Alltaf er jafnmikill spenningur hjá okkur íslendingum að fá nýtt og ferskt grænmeti á diskana okkar þegar þessi tími er kominn.  Hér á síðunni má finna fjölda uppskrifta af skemmtilegum og góðum réttum þar sem gulrófan er í aðalhlutverki.


92 b

Sprengidagur 9. febrúar.

Nú fer að styttast í sprengidaginn sem er þriðjudaginn 9. febrúar. Löng hefð er fyrir því á Íslandi að borða saltkjöt með öllu tilheyrandi. Þar er íslenska gulrófan í stóru hlutverki.

Dagarnir fyrir sprengidag eru lang söluhæstu dagar hjá okkur rófubændum og allir keppast við að þvo og pakka. Hér er Einar bóndi á Norður Hvoli í Mýrdal að þvo og pakka og Birna hefur stokkið af stólnum til að smella af honum mynd.  Hér á heimasíðunni má finna  uppskriftir af ýmsum réttum sem innihalda rófur.


Norður Hvoll 2015

Uppskera 2015

Vegna smá tækniörðugleika hefur ekki verið sett inn frétt í nokkurn tíma.

Nú er að sjálfsögðu öll uppskera komin í hús. Vorið var kalt og rófurnar lengi af stað en það breyttist um leið og hlýnaði. Seinnipart sumars tóku við endalausar rigningar sem hömluðu upptöku en það var þó bót í máli að hlýindi héldust lengi, rófurnar voru að vaxa langt fram eftir og uppskeran bjargaðist eftir nokkurn barning. Þetta átti sérstaklega við á Suðurlandi, en í Árnessýslu var uppskera góð en lakari í Skaftafellssýslu. Ef geymsla heppnast vel í vetur má búast við að uppskera nái að anna innanlandsmarkaði.  Myndina hér að ofan tók Birna á Norður Hvoli af bónda sínum Einari, sem er þarna við uppskerustörf ásamt aðstoðarmönnum.


Vorverkin 2015

Nú eru rófubændur búnir að sá á þessu óvenjukalda vori.  Rófurnar eru byrjaðar að koma upp eins og sést á þessari mynd sem tekin var í síðustu viku.   Þetta er sérlega vel heppnuð sáning með hæfilegu millibili.  Undir akrýldúkum og netdúkum eru plönturnar orðnar heldur stærri og má búast við nýjum íslenskum rófum í lok júlí  eða byrjun ágúst.  Eftir svona kalt vor má búast við heldur lakari uppskeru en venjulega en þó getur sumarið ráðið úrslitum um það verði það heitt og gott. Haustið getur líka haft töluvert að segja.