Andarófur

Andarófur

Eftirfarandi uppskrift var tekin af bloggsíðu Sigurveigar Káradóttur matgæðings

Á sama hátt og mörgum finnst pizzugerð ómissandi á föstudögum,
þykir mér góð steik frekar frábær byrjun á helginni.
Tekur líka stuttan tíma og klikkar sjaldan.
Allavega ef kjötið er vel valið. Þessi Red Roy steik úr Kjöthöllinni var alveg tilbúin á pönnuna og sveik sko ekki. Það er ekki verra að kaupa kjöt nokkrum dögum fyrr og leyfa því að meyrna áður en það á að fara á pönnuna. Þessi steik þoldi það hins vegar alveg að vera bara kippt með heim á föstudegi.

Hvað er svo með steikinni er misjafnt eftir því hvað er til og hvað ég er í stuði fyrir.

Að þessu sinni voru það rófur, sem mér þykja afskaplega vanmetnar. Ég er alveg rófusjúk og nota þær í alls kyns rétt. Skipti þeim oft út fyrir sætar kartöflur í uppskriftum, enda eru þær oft ferskari og fallegri að sjá en sætu kartöflurnar sem hafa oft ferðast töluvert þegar þær koma í verslanir.

Það eina sem ég gerði við þær var að skera þær í litla teninga, setja í ofnkúffu með andafitu og sjávarsalti og hræra í þeim við og við.
Þetta voru 2 meðalstórar rófur, 2 matskeiðar af andafitu og eitthvað af sjávarsalti. Hafði þær á háum hita – 200-220 gráðum og þær tóku svona 20-30 mínútur minnir mig. Andafitan þolir mjög vel hita og er því tilvalin í steikingu á háaum hita. Hana fékk í krukku úti í Melabúð. Á oft krukku af henni inni í ísskáp, enda geymist hún vel og er nauðsynleg í marga góða rétti.

Sósan var algjört dúndur.

Fann tæpa hálfa rauðvínsflösku inni í skáp sem ég setti í pott og sauð niður. Þegar um það bil einn þriðji var eftir af rauðvíninu slökkti ég undir pottinum. Þetta hafa verið svona 300 ml sem urðu að 100 ml við suðuna.

Sveppina steikti ég á mjög heitri pönnunni úr dálitlu af ósöltu smjöri.
Tók þá svo til hliðar og hélt þeim heitum.

Því næst var steikin þerruð og krydduð með sjávarsalti, hvítum pipar og svörtum pipar. Hún fór síðan á vel heita pönnuna með smávegis af ósöltu smjöri.

Tók hana því næst af pönnunni og lét hana hvíla sig á meðan sósan varð til.

Á sömu pönnu og bæði sveppirnir og kjötið var steikt (athugið að þvo ekki pönnuna þarna á milli), fór svo rauðvínið sem ég hafði soðið.
Þar gufaði það næstum upp en náði á leið sinni að skrapa upp öll góðu bragðefnin af botninum á pönnunni. Notaði líka gaffal til að skrapa þetta allt upp enda liggur allt góða bragðið á botni pönnunar og það er algjör synd að nota það ekki grunninn á góðri sósu.

Útí pönnuna slettist líka ögn af balsamediki – svona matskeið. Því næst fór væn sletta af rjóma útí þetta. Svona 150-200 ml. Þá var komið að sykrinum.

Hann mældi ég ekkert sérstaklega. Gæti hafa verið svona 50 grömm. Kannski aðeins meira. Við það þykknaði sósan og karmellaðist vel.
Varð þykk, dökk og gljáandi. Og algjört dúndur.

Verði ykkur að góðu:)