stjorn2014

Félag Gulrófnabænda 30 ára

Aðalfundur Félags gulrófnabænda var haldinn 30. nóvember sl. Í sumar voru liðin 30 ár frá stofnun félagsins.
Félagafjöldi var á fyrsta áratug félagsins rúmlega 60 manns og endurspeglaði þann fjölda sem ræktaði rófur á þeim tíma. Nú er félagafjöldinn rúmlega 20 manns enda hafa búin stækkað og þeim fækkað.
Félagið hefur staðið að mörgum framfaraskrefum í greininni. Mörgum tilraunaverkefnum hefur verið unnið að heima hjá bændunum sjálfum í samstarfi við marga af fremstu vísindamönnum á okkar sviði s.s. Sigurgeir Ólafsson, Magnús Ágústsson, Guðmund Halldórsson, Jónatan Hermannsson og Halldór Sverrisson, sem skilað hafa verulegri þekkingu til félagsmanna. Kálflugan var oftast verkefnið og síðan yrkis samanburðartilraunir og geymsluskemmdir og í ár voru tilraunir með mismunandi varnarefni gegn illgresi gerðar á tveimur búum.
Kynnisferðir til rófnabænda í nágrannalöndunum hafa verið árangursríkar,en félagið hefur fjármagnað þær að hluta og undirbúið og hlotið til þess styrki úr Aðlögunarsjóði garðyrkjunnar.
Útboð á rekstrarvörum til félagsmanna hefur öðru hverju verið haldið með góðum árangri.

Síðast en ekki síst hefur hlutverk félagsins verið að sinna verðlags-, kynningar og markaðsmálum greinarinnar. Í því sambandi má nefna að á síðasta ári var sett í loftið heimasíðan www.rofa.is þar sem finna má uppskriftir, fréttir, myndir og annan fróðleik.
Hrafnkell Karlsson á Hrauni gekk úr stjórn en hann hefur verið formaður félagsins lengst af og var einn af stofnfélögunum. Honum voru þökkuð vel unnin störf og hann gerður að fyrsta heiðursfélaga félagsins.

Ný stjórn var kosin en í henni eiga sæti: Guðni Einarsson Þórisholti, Einar Magnússon Norður-Hvoli, Sturla Þormóðsson Fljótshólum, Bjarki Guðnason Maríubakka og Hjörtur Benediktsson Hveragerði. Stjórnin mun síðan skipta með sér verkum.