Flokkaskipt greinasafn: FRÉTTIR

Færslur settar í þennan flokk birtast undir liðnum fréttir.

92 b

Sprengidagur 9. febrúar.

Nú fer að styttast í sprengidaginn sem er þriðjudaginn 9. febrúar. Löng hefð er fyrir því á Íslandi að borða saltkjöt með öllu tilheyrandi. Þar er íslenska gulrófan í stóru hlutverki.

Dagarnir fyrir sprengidag eru lang söluhæstu dagar hjá okkur rófubændum og allir keppast við að þvo og pakka. Hér er Einar bóndi á Norður Hvoli í Mýrdal að þvo og pakka og Birna hefur stokkið af stólnum til að smella af honum mynd.  Hér á heimasíðunni má finna  uppskriftir af ýmsum réttum sem innihalda rófur.


Norður Hvoll 2015

Uppskera 2015

Vegna smá tækniörðugleika hefur ekki verið sett inn frétt í nokkurn tíma.

Nú er að sjálfsögðu öll uppskera komin í hús. Vorið var kalt og rófurnar lengi af stað en það breyttist um leið og hlýnaði. Seinnipart sumars tóku við endalausar rigningar sem hömluðu upptöku en það var þó bót í máli að hlýindi héldust lengi, rófurnar voru að vaxa langt fram eftir og uppskeran bjargaðist eftir nokkurn barning. Þetta átti sérstaklega við á Suðurlandi, en í Árnessýslu var uppskera góð en lakari í Skaftafellssýslu. Ef geymsla heppnast vel í vetur má búast við að uppskera nái að anna innanlandsmarkaði.  Myndina hér að ofan tók Birna á Norður Hvoli af bónda sínum Einari, sem er þarna við uppskerustörf ásamt aðstoðarmönnum.


Vorverkin 2015

Nú eru rófubændur búnir að sá á þessu óvenjukalda vori.  Rófurnar eru byrjaðar að koma upp eins og sést á þessari mynd sem tekin var í síðustu viku.   Þetta er sérlega vel heppnuð sáning með hæfilegu millibili.  Undir akrýldúkum og netdúkum eru plönturnar orðnar heldur stærri og má búast við nýjum íslenskum rófum í lok júlí  eða byrjun ágúst.  Eftir svona kalt vor má búast við heldur lakari uppskeru en venjulega en þó getur sumarið ráðið úrslitum um það verði það heitt og gott. Haustið getur líka haft töluvert að segja.

IMG_3003 b

Ný heimasíða og uppskriftabæklingur

Nú á dögunum var ný heimasíða uppfærð fyrir Félag gulrófnabænda.  Jafnhliða þessu verkefni lét félagið gera vandaða uppskriftabæklinga sem dreift var í búðum.  Þar gefa 7 matgæðingar uppskriftir af nýjum rófuréttum.  Hér á heimasíðunni má sjá allar þessar uppskriftir. Með þessu framtaki vill félagið kynna rófuna á nýjan hátt og efla þannig neyslu hennar, en rófan er eitt það fyrsta grænmeti sem ræktað var á Íslandi. Á síðunni eru einnig tenglar á ýmsar heimasíður sem tengjast rófunni á einn eða annan hátt.  Félagið vill þakka öllum þeim sem komu að þessu verkefni fyrir frábærlega vel unnin störf.                       Myndina sem fylgir þessari frétt tók Birna á Norður- Hvoli, en oft má finna ýmsar spaugilegar rófur í görðum á haustin.   Þessar tvær hafa kunnað einstaklega vel við að liggja hlið við hlið og hreinlega sameinast.


Sveitasnakk

Sveitasnakk

Undanfarið hafa Svavar og Berglind á Karlastöðum í Berufirði unnið að þróun á snakki úr gulrófum. Þeim fannst vanta snakk á markað úr heilnæmum hráefnum sem hægt væri að rækta hér á landi. Gulrófan varð fyrir valinu, sítróna norðursins, stútfull af C-vítamíni og stuði.

Rófurnar eru sneiddar og bakaðar (ekki djúpsteiktar) og svo eru þær kryddaðar með ferskum chilipipar, hvítlauk og sjávarsalti. Markmiðið er að framleiðslan og ræktun allra hráefna fari fram á sveitabæ þeirra, Karlsstöðum, en þau eru nú þegar búin að undirbúa nokkra hektara lands fyrir gulrófuræktun.

Vöruþróunin var gerð í samstarfi við Matís og á lokametrum þróunarvinnunnar gufaði snakkið upp úr skálunum, svo góðar voru viðtökurnar. Markmiðið er að setja snakkið á markað í vor en fyrst þarf að byggja aðstöðu fyrir framleiðsluna, sjálfa snakkverksmiðjuna!

Á Karlsstöðum er eldra fjós sem mun fá nýtt líf. Fyrsta skref var að rífa allar innréttingar og klæðningar innan úr því. Þá teiknuðu þau upp snakkverksmiðjuna, réðu smið, og hófust handa við að byggja húsið upp á nýtt.

Mikið verk hefur áunnist en það er ennþá langt í land. Markmiðið er að verkið verði klárt fyrir vorið. Þá verði snakkverksmiðjan komin á laggirnar, og á markað komi fyrsta flokks heilsusamlegt sveitasnakk úr gulrófum, undir merki Havarí

Hér gefst áhugasömum kostur á að leggja verkefninu lið. Hægt er að kaupa fjármögnunarpakka í öllum stærðum og gerðum og hjálpa þannig til við að koma á fót nýstárlegri snakkverksmiðju þar sem lögð verður stund á matarhandverk úr hágæða hráefnum.

Ýmsar leiðir eru í boði, allt frá snakkpakka úr fyrstu lögun ásamt árituðu viðurkenningarskjali, upp í heimsókn í snakkverksmiðjuna, dvöl á gistiheimilinu, tónleika með Prins Póló og Bulsu veislu!

Hægt er að fylgjast með framvindunni á www.facebook.com/hahavari


Hjónin á Norður Hvoli í Mýrdal undirbúa sprengidag

Sprengidagur 17. febrúar

Nú fer að styttast í sprengidaginn sem er þriðjudaginn 17. febrúar. Löng hefð er fyrir því á Íslandi að borða saltkjöt með öllu tilheyrandi. Þar er íslenska gulrófan í stóru hlutverki.

Dagarnir fyrir sprengidag eru lang söluhæstu dagar hjá okkur rófubændum og allir keppast við að þvo og pakka. Þar á meðal eru hjónin á Norður Hvoli í Mýrdal, þau Einar Magnússon og Birna Viðarsdóttir sem er hér á myndinni að fara í gegnum heilt fjall af fallegum rófum.


Risarófa

Rófur gefnar í leikskóla

Á dögunum gaf Félag gulrófnabænda öllum leikskólum í Reykjavík sem það vildu. 10 kg af gulrófum. Markmiðið með þessu var að kynna þessa góðu íslensku afurð fyrir neytendum framtíðarinnar og auka neysluna á henni. Rófan á í harðri samkeppni við aðrar afurðir eins og t.d. innfluttar sætar kartöflur. Rófan er frábært snakk full af A og C vítamíni, fitusnauð og kolvetnarík. Hún er einkar hentug fyrir þá sem vilja grennast, svo má ekki gleyma því að hún styrkir tennur.

Félag gulrófnabænda  er núna að vinna við útgáfu á uppskriftabæklingi sem mun liggja frammi í helstu búðum nú á vordögum, þar sem helstu kokkar landsins gefa okkur dæmi um uppskriftir, einnig er meiningin að dreifa honum til flestra matreiðslumanna landsins.  Útvarspsauglýsingar eru að fara í gang núna kringum bónda- og konudag þar sem karlmenn eru hvattir til að; rófa konuna á konudaginn og konur að rófa bóndann á bóndadaginn.


Sauður og hundur

Rófur á Þorláksmessu

Nú fer að styttast í Þorláksmessu en þá hefur skapast sú hefð að borða skötu og þá að sjálfsögðu með rófum og kartöflum. Á sölutölum má sjá að nokkur söluaukning er á þessum tíma og eru bændur nú í óða önn að þvo og pakka og senda í búðir. Það eru fleiri en mannskepnan sem eru hrifnir af rófunni. Þessi kind sem er á bænum Norður- Hvoli í Mýrdal lætur ekki varðhundinn stoppa sig. Það var annar bóndinn á bænum, Birna Viðarsdóttir sem tók þessa frábæru mynd, en þar býr hún ásamt manni sínum Einari Magnússyni.